Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um drög að frumvarpi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni

Starfshópur hefur starfað í velferðarráðuneytinu í vetur og unnið drög að frumvarpi um staðgöngumæðrun (lesið drögin hér).

Þessi drög voru gerð opinber til umsagnar 18. nóvember 2014, og mun starfshópur taka tillit til þeirra athugasemda sem berast áður en frumvarpið verður afhent ráðherra til afgreiðslu á alþingi.

Kvenréttindafélag Íslands skilaði eftirfarandi umsögn um drög að frumvarpinu 2. desember 2014:

Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um drög að frumvarpi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, sem til stendur að leggja fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015

Kvenréttindafélag Íslands skilaði inn umsögn þann 8. febrúar 2011 um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun, þskj. 376 – 310. mál. Þar ályktaði Kvenréttindafélagið að lagafrumvarpið væri ótímabært, að umræða í samfélaginu væri enn á frumstigi, og að veigamikil siðferðisleg rök væru gegn því að heimila staðgöngumæðrun, hvort sem er í velgjörðarskyni eða hagnaðarskyni.

Erfiðar siðferðislegar spurningar vakna í umræðunni um staðgöngumæðrun og siðfræðingar eins og Sólveig Anna Bóasdóttir hafa bent á að rétti kvenna yfir eigin líkama sé stefnt í hættu þegar staðgöngumæðrun sé fest í lög. Ástríður Stefánsdóttir læknir og siðfræðingur tekur í sama streng, og hefur einnig minnt á það að staðgöngumæðrun hafi tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem hún er heimiluð. Ástríður hefur einnig minnt á að Ísland hefur um áratuga skeið verið í samfloti með Norðurlöndum í flestum veigamiklum málefnum og að ekkert Norðurlandanna hefur séð ástæðu til þess að heimila staðgöngumæðrun, og í Finnlandi sé staðgöngumæðrun beinlínis bönnuð.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur að staðgöngumæðrun ætti ekki að lögfesta hér á landi. Umræðan um staðgöngumæðrun snýst að talsverðu leyti um réttindi fólks til að verða foreldri. Stjórn Kvenréttindafélagsins lítur á það sem forréttindi að eignast börn en ekki mannréttindi. Hvetur Kvenréttindafélagið til þess að stjórnsýslan beiti sér fyrir því að ættleiðingaferlið hér á landi verði gert mun skilvirkara en nú er, gert gagnsætt og einfaldað; að frumættleiðingar verði aðgengilegur valkostur fyrir fólk sem vill verða foreldrar.

Að þessu sögðu, þá skilum við hér með athugasemdum við frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni (heildarlög), sem til stendur að leggja fyrir Alþingi á 144. Löggjafarþingi 2014–2015.

7. grein: Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Í 7. grein er gert ráð fyrir að nefnd skipuð af ráðherra skuli veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og að þessi nefnd skal skipuð til þriggja ára í senn.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands veltir fyrir sér hvort einhver tímatakmörk séu sett á setu einstaklinga í nefndinni. Getur sami einstaklingur setið í nefndinni í mörg ár eða áratugi?

Einnig veltir stjórn Kvenréttindafélagsins fyrir sér hvernig fjrármagna á störf nefndarinnar.

8. grein: Skilyrði er varða staðgöngumóður og maka hennar

Í c. lið 8. greinar er fjallað um tengsl staðgöngumóður og maka hennar við verðandi foreldra. Lagt er til að staðgöngumóðir og maki hennar megi ekki vera systir eða bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggur til að þessi grein verði víkkuð út svo að skyldleiki í beinan legg megi ekki vera milli staðgöngumóður og maka hennar við báða verðandi foreldra.

Stjórn Kvenréttindafélagsins hefur áhyggjur af því að fjölskylduþrýstingur geti haft áhrif á ákvörðun kvenna um að ganga með börn fyrir aðra, og gildir þá einu hvort að skyldleiki sé á milli staðgöngumóður og kynfrumugjafa eða við maka kynfrumgjafa.

Einnig hefur stjórn Kvenréttindafélagsins áhyggjur af því að fjölskyldutengsl, hvort sem er skyldleiki við kynfrumugjafa eða maka kynfrumugjafa, geti haft óeðlileg áhrif á ákvörðun staðgöngumóður eftir fæðingu, hvort hún vilji gefa frá sér barnið eður ei.

Stjórn Kvenréttindafélagsins bendir á að þau stundum flóknu bönd sem tengja fjölskyldur saman verða enn flóknari þegar staðgöngumæðrun á sér stað innan fjölskyldunnar, og gildir þá einu hvort að staðgöngumóðir sé skyld kynfrumugjafa eða maka kynfrumugjafa.

Í e. lið 8. greinar er gert ráð fyrir að staðgöngumóðir eigi að baki fæðingu a.m.k. eins fullburða barns eftir eðlilega meðgöngu.

Stjórn Kvenréttindafélagsins leggur til að þessari grein verði breytt svo að staðgöngumóður eigi að baki fæðingu a.m.k. eins fullburða barns „eftir eðlilega meðgöngu og eðlilega fæðingu.“

Í g. lið og h. lið 8. greinar er gert ráð fyrir að a.m.k. tvö ár hafi liðið frá fæðingu barns staðgöngumóður og að ef staðgöngumóðir hafi misst barn séu a.m.k. tvö ár liðin frá andláti barnsins.

Stjórn Kvenréttindafélagsins veltir fyrir sér hvort að skýra þurfi viðmið þessarar tímasetningar. Er átt við tvö ár áður en umsókn er lögð fram um staðgöngumæðrun til nefndar um staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni? Eða tvö ár áður en staðgöngumóðir gengur undir glasafrjóvgun fyrir verðandi foreldra? Eða tvö ár áður en staðgöngumóðir fæðir skipulagt barn? Stjórn Kvenréttindafélagsins álítur að tímaviðmiðið eigi að vera tvö ár hið minnsta frá fæðingu og andláti barns þar til umsókn er lögð fram um staðgöngumæðrun.

9. grein: Skilyrði er varða væntanlega foreldra

Í 9. grein er gert ráð fyrir að einhleypir geti fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ef „sérstaklega stendur á“.

Stjórn Kvenréttindafélags þykir þessi grein afar óljóst orðuð og veltir fyrir sér hvort hægt sé að skilgreina betur hvenær einhleypir geta fengið leyfi til staðgöngumæðrunar og hvenær ekki.

Einnig veltir stjórn Kvenréttindafélagsins fyrir sér hvort sömu tímatakmörk eigi að gilda um hversu lengi verðandi foreldri þarf að hafa verið einhleypt og þau sem gilda um hve lengi verðandi foreldrar hafi verið í hjúskap. Í greininni eru sett skilyrði þess að verðandi foreldrar skuli hafa búið saman í a.m.k. þrjú ár til að mega sækja um að kona gangi með barn fyrir þau. Engin slík tímatakmörk eru sett á einstaklinga, og gæti t.d. leitt til þess að par komist undan þriggja ára reglunni með því að sækja um sem einstaklingar.

13. grein: Ráðgjöf

Í 13. grein er gert ráð fyrir því að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skuli sjá til þess að umsækjendur fái víðtæka ráðgjöf og upplýsingar um þau læknisfræðilegu, lögfræðilegu, siðferðilegu, félagslegu og önnur áhrif sem staðgöngumæðrun kann að hafa.

Stjórn Kvenréttindafélagsins telur að lögin þurfi að kveða á um hver greiði fyrir þessa ráðgjöf. Er það nefndin sjálf, sjúkratryggingar, verðandi foreldrar, eða staðgöngumóðirin?

Stjórn Kvenréttindafélagsins leggur áherslu á að hugsað verði fyrir fjármögnun þessarar ráðgjafar, og að ráðgjöf eigi sér stað á öllum stigum málsins.

Einnig leggur stjórn Kvenréttindafélagsins þunga áherslu á að verðandi foreldrar og staðgöngumóðir njóti ekki ráðgjafar á sama tíma og hjá sama aðila. Staðgöngumóðir og verðandi foreldrar skulu hafa eigin ráðgjafa sem bera hag skjólstæðinga sinna fyrir brjósti. Þetta verður að mati stjórnar Kvenréttindafélagsins að vera skýrt í lögunum.

16. grein: Gagnkvæm viljayfirlýsing

Í 16. grein er talað um gagnkvæma viljayfirlýsingu milli staðgöngumóður og verðandi foreldra um „samskipti eftir afhendingu barns“.

Kvenréttindafélag Íslands mótmælir því að rætt sé um „afhendingu barns“ og finnst það orðalag afar óviðeigandi. Á kynningarfundi um frumvarpið kom formaður starfshóps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með uppástungu til að nota í staðinn, „að afsala sér barninu“.

Einnig veltir Kvenréttindafélagið fyrir sér hvort nefndin og/eða skipaðir ráðgjafar muni aðstoða viðkomandi aðila við að semja og skrifa undir viljayfirlýsinguna. Félagið óttast að þrýstingur fjölskyldunnar geti haft óeðlileg áhrif á verðandi staðgöngumóður og telur eðlilegt að henni verði útvegaður lagalegur ráðgjafi að kostnaðarlausu til að styðja hana í gegnum þetta ferli. Lögin yrðu þá að kveða á um hvaðan fjármagn til þeirrar ráðgjafar kæmi.

17. grein: Heimild til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni

Kvenréttindafélagið benti á í umsögn sinni dagsettri 11. febrúar 2011 um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun þskj. 376 – 310. mál á umfjöllun Ástríðar Stefánsdóttur læknis og siðfræðings um staðgöngumæðrun. Ástríður skrifaði grein í Fréttablaðið 29. janúar 2011 þar sem hún bendir á að staðgöngumæðrun hafi tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem hún hefur verið heimiluð.

Konur eru ekki markaðsvara, og meðganga er ekki þjónusta.

Erfitt er að sjá hvernig hægt er að koma í veg fyrir markaðsvæðingu staðgöngumæðrunar ef hún verður lögfest hér á landi í velgjörðarskyni. Þetta er ein ástæða þess að stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggst gegn lögfestingu staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

Að þessu sögðu, ef staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður lögfest, stjórn Kvenréttindafélagsins það afar mikilvægt að ströng skilyrði verði um fjárhagsleg tengsl milli móður og verðandi foreldra.

Að sama mati stjórnar Kvenréttindafélags Íslands er sjálfgefið að verðandi foreldrar greiði fyrir nauðsynlegan kostnað en veltir fyrir sér hver mun meta þennan kostnað og einnig hvaða kostnað má skilgreina sem eðlilegan kostnað.

Stjórn Kvenréttindafélagsins telur að enginn möguleiki sé í raun á að koma í veg fyrir að fólk greiði staðgöngumóður fyrir meðgönguna. Því hefur stjórnin þungar áhyggjur af að í því frumvarpi sem stendur til að leggja fyrir Alþingi séu engin ákvæði um hver skuli fylgjast með greiðslum milli verðandi foreldra og staðgöngumóður. Er það lögreglan? Landlæknir? Velferðarráðuneytið? Einhver bókhaldsskrifstofa?

Stjórn Kvenréttindafélagsins bendir á að erfitt er að fylgjast með því að greiðslur fyrir meðgöngu eigi sér ekki stað, því að þóknun getur verið í ýmsu formi, svo sem í formi peningagreiðslna, gjafa, fjárhagslegrar aðstoðar, aðstoðar til náms, aðstoðar til ferðalaga, aðstoðar í formi starfsframlags, o.s.frv.

Kvenréttindafélagið telur nauðsynlegt að hafa skýr ákvæði í lögunum um að ef upp komist um slíkar greiðslur teljist það refsivert og teljum að viðurlögum við brotum á þessari grein skuli bætt inn í 33. grein sem varða refsingar.

33. grein: Refsingar

Í 33. grein er gert ráð fyrir sektum að lágmarki 500.000 kr. eða fangelsi allt að þremur árum við ýmsum brotum á lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands fagnar því sérstaklega að viðurlög eru við því að fólk kaupi sér líkama kvenna t.d. í svokölluðum „baby factories“ í þróunarlöndum, og einnig að viðurlög eru við staðgöngumæðrun án leyfis nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni, við banni um staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni, og við bann við auglýsingu um staðgöngumæðrun.

Stjórn Kvenréttindafélagsins veltir þó fyrir sér hvort að nauðsynlegt sé einnig að telja refsivert ef ætlaðir kjörforeldrar þvinga aðra til að ganga með börn fyrir sig.

Einnig veltir stjórn Kvenréttindafélagsins fyrir sér hvort að telja ætti refsivert ef verðandi foreldrar neita að taka við barninu þegar það er fætt.

Að lokum telur stjórn Kvenréttindafélags Íslands nauðsynlegt að setja skýrt í lögin að það sé refsifert athæfi að greiða staðgöngumóður umfram það sem eðlilegt getur talist vegna meðgöngu, og hvetur til þess að viðurlögum við brotum á 17. grein skuli bætt inn í 33. grein sem varða refsingar.

39. grein: Breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands veltir fyrir sér hvaða breytingar verði gerðar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof til að tryggja rétt staðgöngumóður og maka hennar að fæðingarorlofi.

Stjórn Kvenréttindafélagsins telur mikilvægt að maka staðgöngumóður sé tryggt foreldraorlof ásamt staðgöngumóður.

Auglýsingar

Kaffi, konfekt og jólabækur! Velkomin á femínískt bókakvöld fimmtudaginn 4. desember kl. 17

Hinn árlegi jólafundur Kvenréttindafélags Íslands og Kvennasögusafns Íslands verður haldinn í Þjóðarbókhlöðunni, fimmtudaginn 4. desember kl. 17 – 18:30.

Steinar Bragi mætir og les upp úr skáldsögu sinni Kötu, Kristín Steinsdóttir les upp úr skáldsögunni Vonarlandið og Björk Þorgrímsdóttir og Valgerður Þóroddsdóttir lesa upp úr Konur á ystu nöf og fleiri meðgönguljóðum.

Tökum forskot á jólin með góðum bókum, kaffi, konfekti og kvennasamstöðu!

 ***

Steinar Bragi er fæddur í Reykjavík árið 1975. Hann er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og með B.A. próf í almennri bókmenntafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út ljóðabækur og skáldsögur. Fyrsta skáldsaga hans, Turninn, kom út árið 2000 og fleiri hafa síðan fylgt í kjölfarið. Árið 2010 var Steinar tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína Konur.

Kristín Steinsdóttir er fædd á Seyðisfirði árið 1946. Kristín hefur skrifað barnabækur, skáldsögur og leikrit og hefur verið virk í baráttunni fyrir hagsmunum íslenskra rithöfunda. Kristín hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir skrif sín. Fyrsta bók hennar, Franskbrauð með sultu sem út kom 1987 hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin. Síðasta skáldsaga hennar, Ljósa, hlaut bæði Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og Menningarverðlaun DV. Árið 2013 var Kristínu veit Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir framlag til íslenskra bókmennta.

Björk Þorgrímsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1984. Fyrsta bók hennar, ástarsagan „Bananasól“, kom út hjá grasrótarforlaginu Tunglinu árið 2013, en Björk hefur einnig birt ljóð í tímaritinu Stínu, kvæðasöfnunum Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík, Konur á ystu nöf og sýnisbókinni Hvísl. Fyrsta ljóðabók Bjarkar, Neindarkennd, kom út hjá Meðgönguljóðum í febrúar 2014.

Valgerður Þóroddsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1989. Hún er ein af stofnendum og forsvarsfólki Meðgönguljóða, þar sem hennar fyrsta bók kom út 2012, en hún hefur síðan birt ljóð í tímaritinu Stínu, kvæðasöfnunum Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík og Konur á ystu nöf, sem og á ensku í tímaritunum SAND Journal og Fireflies í Berlín. Árið 2014 var Valgerður tilnefnd fyrir hönd Íslands til New Voices verðlaunanna á vegum PEN, alþjóðasamtaka rithöfunda.

Skelfileg tölfræði kynferðisofbeldis

Í tilefni af alþjóðlega sextán daga átakinu gegn kynbundnu ofbeldi skrifaði Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins, grein í Fréttablaðið þar sem hún birti all svakalega tölfræði.

Það er ógnarstjórn að búa í samfélagi þar sem 87% lögregluþjóna eru karlar. Það er ógnarstjórn að búa í samfélagi þar sem á sama tíma og 248 mæta í Neyðarmóttöku vegna nauðgunar og 1086 leita aðstoðar hjá Stígamótum eru aðeins 189 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu, 88 málum vísað til ríkissaksóknara, 31 ákæra gefin út og 23 sakfellingardómar felldir. Og það er ógnarstjórn að búa í samfélagi þar sem 42% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla, þar sem 24% kvenna hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu karla, þar sem 4% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla á undangengnum 12 mánuðum.

Margir spyrja sig eflaust: Hvar fengum við tölfræðina?

Um 87% lögregluþjóna eru karlar.

logreglan_net000002

Þessi tala er fengin úr skýrslu Finnborgar Salome Steinþórsdóttur, „Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar“, sem hún vann fyrir Háskóla Íslands í samstarfi við Ríkislögreglustjóra og kom út í lok árs 2013.

Í skýrslunni veltir Finnborg fyrir sér af hverju svo fáar konur eru í lögreglunni, en þrátt fyrir að konur hafi verið 17-33% útskráðra nemenda frá Lögregluskóla ríkisins síðan 1999 voru þær einungis 12,6% lögreglumanna í febrúar 2013. Nær engar konur eru á efstu starfsstigum lögreglunnar.

Finnborg lagði nafnlausa spurningalista fyrir alla starfandi lögreglumenn og tók einnig viðtöl við sex lögreglukonur sem höfðu á einhverjum tímapunkti hætt störfum hjá lögreglunni.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að tæplega 18% lögreglumanna töldu sig þolendur eineltis í lögreglunni, þ.e. 24% kvenna og 17% karla. Gerendur eineltis eru oftast karlkyns yfirmenn eða karlkyns samstarfsmenn.

Tæplega 31% kvenna og 4% karla í lögreglunni töldu sig þolendur kynferðislegrar áreitni í lögreglunni. Gerendur kynferðislegu áreitninnar eru karlkyns samstarfsmenn og karlkyns yfirmenn.

Viðhorf til kvenna eru heldur neikvæð. Konur treysta sér og öðrum konum til að sinna öllum verkefnum lögreglunnar en karla gera það síður. Viðhorf yngstu lögreglumannanna eru íhaldsömust og gefur það til kynna að jafnrétti innan lögreglunnar mun ekki aukast sjálfkrafa í framtíðinni.

Hægt er að lesa skýrslu Finnborgar „Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar“ hér.

248 mættu í Neyðarmóttöku vegna nauðgunar á árunum 2008 og 2009.

Þessa tölu er að finna í litlu riti sem ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem hafa áhuga á jafnréttismálum.

Jafnréttisstofa gefur á fjögurra ára fresti út skýrslur þar sem ýmsar tölur í jafnréttismálum á Íslandi eru settar fram á myndrænan máta. Þessar skýrslur eru afar læsilegar (lítið er um texta og mikið er um myndir), en það háir henni þó að bera afspyrnu leiðinlegan titil: „Tölulegar upplýsingar: Hlutföll og fjöldi karla og kvenna á ýmsum sviðum samfélags“.

Í október 2013 birtist í nýjasta útgáfa þessarar tölfræðiskýrslu, og er þar að finna samantekt yfir fjölda þeirra sem leituðu á Neyðarmóttöku vegna nauðgana á árunum 1993-2012, kynjagreind.

Tilkynntar nauðganir á Neyðarmóttöku 1993-2012

„Tölulegar upplýsingar: Hlutföll og fjöldi karla og kvenna á ýmsum sviðum samfélags 2013“ er að finna hér.

1086 leituðu sér aðstoðar hjá Stígamótum á árunum 2008 og 2009.

Ársskýrslur Stígamóta eru mikill fjársjóður fyrir baráttufólk um jafnrétti og vitnisburður um ljótan veruleika í íslensku samfélagi.

stigamot_logo StígamótÁ vefsíðu Stígamóta er hægt að lesa allar ársskýrslur síðan 2002 (sjá hér), og í þeim er hægt að finna ógrynni upplýsingar sem geta aðstoðað okkur að skilja birtingarmyndir kynbundis ofbeldis hér á landi.

Í greininni í Fréttablaðinu tók framkvæmdastýrar tölur úr ársskýrslum fyrir árin 2008 og 2009, en vil nú nota tækifærið að fletta aðeins í gegnum ársskýrsluna 2013.

Á árinu 2013 leituðu 706 einstaklingar til Stígamóta, þar 323 sem leituðu aðstoðar vegna eigin mála í fyrsta skipti. 78 aðstandendur leituðu til Stígamóta og þar af voru 35 með upplýsingar um mál sem ekki voru þekkt hjá Stígamótum fyrir. Heildarfjöldi ofbeldismanna árið 2013 var 597, bæði í nýjum málum og upplýsingum um mál frá aðstandendur.

Stígamót tvínónar ekki við að taka saman tölur frá upphafi starfsemi sinnar:

Í þau 24 ár sem liðin eru frá stofnun Stígamóta hafa 6.702 einstaklingar leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Jafnframt er þess að geta að ofbeldismennirnir teljast vera 9.630 en eru væntanlega nokkuð færri þar sem einhverjir þeirra hafa beitt fleiri en einn einstakling ofbeldi.

Framkvæmdastýra vill nota tækifærið og benda einnig sérstaklega á ársskýrslur Kvennaathvarfsins sem gott er að lesa til hliðar við upplýsingar frá Stígamótum (hægt er að finna þær allar hér).

Hér er komuskrá til Kvennaathvarfsins 2006-2013, sem hægt er að finna í ársskýrslunni 2013.

Á árunum 2008 – 2009 voru 189 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu, 88 málum var vísað til ríkissaksóknara, 31 ákæra var gefin út og 23 sakfellingardómar voru felldir.

héraðsdómur reykjavíkur

Þessar tölur eru fengnar úr skýrslu Hildar Fjólu Antonsdóttur og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, „Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð“, sem kom út árið 2013. Skýrslan var unnin við Eddu – öndvegissetur við Háskóla Íslands í samstarfi við innanríkisráðuneytið.

Þessi skýrsla er algjör skyldulesning fyrir þá sem vilja sjá hvernig tekið er á nauðgunum og öðrum kynferðisbrotum í lagalega kerfinu.

Í skýrslunni voru rannsakaðar allar tilkynntar nauðganir sem bárust lögregluembættum landsins árin 2008 og 2009, alls 189 mál, og tekið saman hvað einkenndi málin og hvaða afgreiðslu þau hlutu í kerfinu.

meðferð kynferðisafbrotamála 2008-2009

Hvar og hvenær eiga nauðganir sér stað?

 • Í skýrslunni kemur m.a. fram að lítill munur var á fjölda tilkynntra nauðgana á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð miðað við íbúafjölda og að flestar nauðgunartilkynningar berast lögreglunni um helgar, eða 63%.
 • Í 78% málanna var brotavettvangur innandyra, á heimili geranda, brotaþola eða þriðja aðila.

Gerendur

 • Í öllum tilvikum nema einu voru gerendur karlar eða drengir.
 • Flestir gerendur voru á aldrinum 18-29 ára, sá yngsti var 12 ára en sá elsti 68 ára.
 • Í 71% málanna voru gerendur íslenskir.
 • Erlendir gerendur voru 23% og flestir þeirra voru evrópskir, eða alls í 14% mála.
 • Í 6% mála kom ekki fram hvort gerendur væru íslenskir eða erlendir.

Brotaþolar

 • Nánast allir brotaþolar voru konur eða stúlkur, eða 98%, en í fjórum málum voru brotaþolar karlar eða drengir.
 • Alls voru 7% brotaþola konur af erlendu þjóðerni.
 • Helmingur brotaþola var 19 ára og yngri og 16% voru börn yngri en 15 ára. Yngsti brotaþoli var 3 ára stúlkubarn og sá elsti 61 árs gömul kona.

Tengsl gerenda og brotaþola

 • Í tæplega helmingi málanna þekktust gerandi og brotaþoli lítið eða ekkert, í 24% málanna höfðu þau kynnst fyrst innan 24 stunda áður en brotið átti sér stað, oft við skemmtanahald.
 • Stærsti einstaki hópur geranda voru vinir eða kunningjar brotaþola, eða í 37% málanna.

Áfengi, ólyfjan og klám

 • Áfengisneysla tengdist brotunum, í 62% tilvikum brotaþola og 40% tilvika hjá gerendum.
 • 5% brotaþola töldu sér hafa verið byrluð lyf, en aldrei hefur tekist að greina leifar af þvílíkum lyfjum við rannsóknir á Íslandi.
 • Greina mátti skýr áhrif kláms í 19% málanna.

Ofbeldi gerenda

 • Í 39% málanna beittu gerendur líkamlegu afli til að ná fram vilja sínu, með ofbeldi eða með hótunum og ógnunum með vopnum, með því að ýta, hrinda, toga, og með frelsissviptingu.
 • Í 27% málanna misnotuðu gerendur rænuleysi brotaþola.
 • Í 21% málanna einkenndist brotið af aðstöðumun aðila, t.d. miklum aldursmun eða þroskamun.

Viðbrögð brotaþola

 • Í 29% málanna neituðu eða mótmæltu þolendur, en frusu svo og grétu.
 • Í 21% málanna streittust brotaþolar á móti gerendum.
 • Í 16% tilvika sýndu brotaþolar virka líkamlega mótspyrnu.
 • Í 15% tilvika gátu brotaþolar enga mótspyrnu sýnt vegna ölvunar.

Skýrsluna er hægt að lesa hér: Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð“.

Hægt er að finna styttri samantekt á niðurstöðum á vef innanríkisráðuneytisins: „Einkenni og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009“.

 

42% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla, 24% kvenna hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu karla, 4% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla á undangengnum 12 mánuðum

kynbundid_ofbeldiÞessar skelfilegu tölur komu úr skýrslu sem kom út í lok ársins 2010 og unnin var af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Skýrslan ber heitið „Rannsókn á ofbeldi gegn konum: Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi“ og höfundar hennar eru Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds.

Þessi skýrsla var unnin sem þáttur í aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn ofbeldi karla gegn konum, og í henni er sagt frá símkönnun þar sem tekið var 3000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá úr hópi kvenna á aldrinum 18–80 ára. 2050 konur svöruðu og var svarhlutfallið 68%.

Rúmlega 42% kvennanna sögðust hafa verið beittar ofbeldi einhvern tíma frá 16 ára aldri, og tæp 4% sögðu ofbeldið hafa átt sér stað á undangengnum 12 mánuðum (haust 2007-2008). Sé þetta hlutfall umreiknað í fjöldatölur miðað við fjölda kvenna á Íslandi í desember 2008 jafngildir það að um 44-49 þúsund konur á Íslandi hafa verið beittar ofbeldi af einhverju tagi á lífsleiðinni.

Um 30% kvennanna sögðust hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi og rúmlega 24% kynferðislegu ofbeldi. Þessi hlutföll samsvara því að á bilinu 30-35 þúsund konur á Íslandi hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi og 24-29 þúsund konur hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi.

Rúmlega 13% kvennanna (12-16 þúsund allra kvenna á Íslandi) sögðust hafa verið nauðgað eða að gert hefði verið tilraun til að nauðga þeim.

„Rannsókn á ofbeldi gegn konum: Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi“ er að finna hér.

Líður ykkur illa?

Hérna er kisa klædd eins og hákarl á rúmbu að elta andarunga.

Ályktun Kvenréttindafélags Íslands um kynjahlutfall ríkisstjórnarinnar og skipan nýs innanríkisráðherra

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hvetur formenn ríkisstjórnarflokkanna, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna Benediktsson, til að rétta við kynjahlutfall í ríkisstjórn Íslands.

Hallað hefur á konur í þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd. Þar hafa þrjár konur gegnt ráðherraembættum á móti sex körlum og nú hverfur ein þessara kvenna, Hanna Birna Kristjánsdóttir, úr ríkisstjórn. Vegna þessara breytinga skorar stjórn Kvenréttindafélags Íslands á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, að hafa mikilvægi jafns hlutfall kynja að leiðarljósi þegar ákvörðun verður tekin um skipan ráðherra.

Hallveigarstaðir, Reykjavík
21. nóvember 2014

Kvenréttindafélag Íslands vinnur að því að bæta réttindi kvenna. Félagið var stofnað árið 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og var hún fyrsti formaður félagsins og gegndi þeirri stöðu í 20 ár. Markmið félagsins við stofnun var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.